Upplýsingavefur um sameiningu sveitarfélaga í A-Hún.
Velkomin(n) á upplýsingavef um sameiningarmál sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Hér má finna fréttir, tilkynningar, fundargerðir og aðrar upplýsingar sem tengjast fyrirhugaðri sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu sem eru; Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd.
Í drögum að frumvarpi til breytinga á sveitarstjórnarlögum, sem innleiðir á ný ákvæði um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga, er haldið í þá reglu sem áður var að finna í sveitarstjórnarlögum frá 1986 og 1998, um að miða skuli við að íbúafjöldi sveitarfélaga þurfi að vera undir lágmarksíbúðamarkinu þrjú ár í röð, áður en ráðuneyti sveitarstjórnarmála ber að hafa frumkvæði að sameiningu sveitarfélagsins við annað eða önnur félög. Þá verður ráðherra fengin heimild til að veita sveitarfélagi tímabundna undanþágu til allt að fjögurra ára frá skilyrði um lágmarksíbúafjölda, ef sérstakar félagslegar eða landfræðilegar aðstæður eru til staðar.
Í bráðabirgðarákvæði frumvarpsins er lagt til að sveitarfélögum sem hafa íbúafjölda undir lágmarkinu 1000 íbúar verði veittur aðlögunarfrestur áður en kemur að því að ráðherra eigi frumkvæði að sameiningu viðkomandi sveitarfélags. Mun ráðherra þannig ekki hafa frumkvæði að því að sameina sveitarfélög, sem hafa færri íbúa en 250, fyrr en tveimur árum eftir sveitarstjórnarkosningar 2022 og þá hefur hann ekki frumkvæði að því að sameina sveitarfélög, sem hafa færri íbúa en 1000, fyrr en tveimur árum eftir sveitarstjórnarkosningar 2026.
Í greinargerð frumvarpsins segir að nýrri sveitarstjórn gefist því gott svigrúm til að móta stefnu og taka frumkvæði sem leið til þess að ákvæðum laganna sé framfylgt. Með því sé lögð áhersla á að frumkvæði þurfi að vera í höndum íbúanna sjálfra í samræmi við meginanda laganna um lýðræðislega aðferð við val á sameiningarkostum, en að það sé þrautaleið komi til þessa að ráðherra þurfi að beita umræddri heimild.
Önnur ákvæði sem snúa að sameiningum sveitarfélaga
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á sveitarstjórnarlögum sem m.a. hafa þann tilgang að stuðla að hvötum til frjálsra sameininga sveitarfélaga, draga úr lagahindrunum vegna sameininga eða styrkja þróun og nýbreytni í stjórnun sveitarfélaga með hliðsjón af nýjum möguleikum sem stafræn samskiptaþróun býður upp á. Lagt er til það nýmæli að sveitarfélögum beri að móta og framfylgja stefnu um það þjónustustig sem þau ætla að halda uppi í byggðalegu tilliti. Er slík stefnumótun hluti af því að sveitarfélög gæti að veikari byggðum eða byggðalögum innan vébanda sinna og móti sér stefnu í þeim efnum. Þá eru í frumvarpinu nefndir möguleikar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að veita aðstoð vegna sameininga og er hann lengdur úr fimm árum í sjö.
Að lokum er lagt til bráðabirgðaákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem hefur þann tilgang að veita Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimild til að halda eftir ákveðinni upphæð af tekjum sjóðsins á hverju ári til að safna í sjóð sem nýttur verður til að veita sameiningaframlög til sveitarfélaga. Fjárhæðin sem um ræðir er einn milljarður á ári, sem er um 5% af lögbundnu framlagi ríkisins í sjóðinn. Með þessu móti á að stórauka stuðning sjóðsins við sameiningar frá því sem áður hefur verið, eins og segir í greinargerð frumvarpsins.
Framtíð Jöfnunarsjóðsins í uppnámi?
Ef marka má frétt Morgunblaðsins í dag gæti framtíð Jöfnunarsjóðsins verið óljós en samkvæmt henni hefur Reykjavíkurborg krafið Jöfnunarsjóð sveitarfélaga um sex milljarða króna vegna vangoldinna framlaga á árunum 2015-2018. Rætt er við Bjarna Jónsson, varaþingmann VG í Norðvesturkjördæmi og segir hann að þurfi Jöfnunarsjóður að greiða borginni kröfuna muni það setja samstarf sveitarfélaganna á Íslandi í uppnám. Jafnframt kunni sveitarfélög sem reiða sig á framlögum úr sjóðnum jafnvel að missa fótanna. Ef borgin vinni málið séu bæði brotnar forsendur fyrir hlutverki sjóðsins og trausti milli sveitarfélaga, segir Bjarni í Morgunblaðinu í dag.
Hér er hægt að skoða drögin í samráðsgáttinni.